Til bakaPrenta
Umhverfis- og skipulagsnefnd Dalabyggðar - 117

Haldinn í stjórnsýsluhúsinu í Búðardal,
04.06.2021 og hófst hann kl. 13:00
Fundinn sátu: Hörður Hjartarson formaður,
Ragnheiður Pálsdóttir varaformaður,
Jón Egill Jónsson aðalmaður,
Sigurður Sigurbjörnsson varamaður,
Þórður Már Sigfússon Skipulagsfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Þórður Már Sigfússon, Skipulagsfulltrúi
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir því að færa mál 1., 2. og 3. aftast í dagskrána. Tekið var fram að það væri gert þar sem Sigurður Sigurbjörnsson, varamaður í nefndinni væri vanhæfur til að taka þátt í umræðum um mál 1. og 2. er varða málefni aðalskipulagsbreytinga vegna vindorku í sveitarfélaginu. Annars vegar þar sem um er að ræða breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðs vindorkuvers á Hróðnýjarstöðum og hins vegar vegna breytingu á aðalskipulagi vegna fyrirhugaðs vindorkuvers í Sólheimum. Samþykkt samhljóða.

Lagt til að máli nr. 2106007 - Iðjubraut - gatnagerð verði bætt á dagskrá fundarins sem liður 7. Samþykkt samhljóða.


Dagskrá: 
Almenn mál
1. 2005016 - Iðnaðarsvæði við Iðjubraut í Búðardal
Lögð fram tillaga að deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Iðjubraut í Búðardal.

Tillagan hefur verið send Skipulagsstofnun og gat stofnunin ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsins þar sem ekki lá fyrir umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulagið og þá fornleifaúttekt sem liggur fyrir um svæðið með bréfi dags. 28. janúar 2021.

Þá gerði stofnunin athugasemdir við uppdrátt og greinargerð og benti á að afla þyrfti umsagnar Vegagerðarinnar um deiliskipulagið.

Athugasemdir Skipulagsstofnunar við greinagerð vörðuðu það að setja þyrfti á skilmála um fyrirhugaðar byggingar, sbr. gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð. Jafnframt þyrfti að setja á skilmála um m.a. bílastæði, girðingar, lýsingu, skilti, gróður o.fl.

Athugasemdir stofnunarinnar við uppdrátt lutu að því að sýna þyrfti staðsetningu hljóðmana og gera grein fyrir þeim í skýringum auk þess sem gera ætti greina fyrir núverandi byggingum innan svæðisins.

Brugðist hefur verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar og liggja fyrir umbeðnar umsagnir frá Minjastofnun Íslands og Vegagerðinni. Málinu vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar.
2. 1805030 - Skógræktaráform í Ólafsdal 137878
Tekið fyrir á nýjan leik erindi frá Minjavernd er varðar umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í Ólafsdal.
Með vísun í 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi er umrædd framkvæmd leyfisskyld og vakin er athygli á því að umrætt skógræktarsvæði fellur undir hverfisvernd Ólafsdals en öll svæði, sem staðfest hverfisvernd gildir um samkvæmt aðalskipulagi, þarf að deiliskipuleggja ef framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Jafnframt er skógrækt á hverfisverndarsvæðum tilkynningarskyld til Skipulagsstofnunar skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Nefndin leggur til við sveitarstjórn að erindið verði samþykkt með tilliti til nýrrar flokkunar á landbúnaðarlandi í drögum að endurskoðun á Aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016, en landið fellur undir flokk II og III samkvæmt þeirri skilgreiningu. Einnig þarf að grenndarkynna framkvæmdina fyrir aðliggjandi jörðum og leita eftir umsögnum frá viðeigandi stofnunum.

Erindið verði samþykkt að uppfylltum skilyrðum um að fyrir liggi umsagnir frá viðkomandi stofnunum og álit Skipulagsstofnunar um matsskyldu. Áréttað er að vinna þarf deiliskipulag í tengslum við framkvæmdina.
3. 2008010 - Skógrækt á jörðinni Ásgarði í Hvammssveit
Úr fundargerð 205. fundar sveitarstjórnar 20.05.2021, dagskrárliður 3:
2008010 - Skógrækt á jörðinni Ásgarði í Hvammssveit
Bókun 116. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar 7.05.2021, dagskrárliður 2, er í fylgiskjali.
Sveitarstjórn beinir því til umhverfis- og skipulagsnefndar að hún geri á næsta fundi sínum tillögu til sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins.

Til máls taka: Einar, Skúli

Samþykkt samhljóða.

Fyrir liggur umsókn um framkvæmdarleyfi á 64 ha svæði í landi Ásgarðs frá Skuggasveini sem fyrirhugað er að fari undir nytjaskógrækt. Afgreiðslu þessa svæðis var frestað á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar þann 5. febrúar sl.

Með vísan í úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í mái nr. 23/2020 leggur nefndin til við sveitarstjórn að veita framkvæmdaleyfi fyrir áðurnefnt 64 ha svæði í landi Ásgarðs.

Nefndin metur það sem svo að ekki sé um að ræða matsskylda framkvæmd. Hins vegar bendir nefndin á, með vísan í 6. mgr. 4. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, að gæta þarf að ásýnd og útsýni við tilhögun framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðili hugi að mótvægisaðgerðum sem miði að því að útsýni skerðist sem minnst.

Sigurður Sigurbjörnsson skilar sératkvæði: Með vísan í fyrirliggjandi gögn í málinu telur Sigurður að hafna beri erindi um framkvæmdarleyfi á téðu 64 ha svæði fyrir neðan Magnússkóga 3.

Samþykkt með 3 (HH, RP, JEJ) gegn 1 (SS).
4. 2012019 - Umsókn um framkvæmdaleyfi - skógrækt, Selárdalur
Umsókn um framkvæmdarleyfi vegna skógræktar í landi Selárdals. Grenndarkynningu er lokið og barst ein athugasemd.


Með vísan í úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 23/2020 leggur nefndin til við sveitarstjórn að veita framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í Selárdal. Það verði gert með fyrirvara um að gerð verði fornleifaskráning á skógræktarreitnum.

Selárdalur fór í eyði árið 1949 og ætla má að miklar mannvistarleifar séu á umræddu skógræktarsvæði sem eru eldri en 100 ára.

Þar er bæjarstæði Selárdals til margra alda ásamt rústum útihúsa, beðasléttum og fl.

Nefndin telur því ekki fært að gefa út framkvæmdaleyfi án skráningar á fornleifum.

Ein athugasemd barst við grenndarkynningu fyrirhugaðrar skógræktar en hún var frá Val B. Guðmundssyni, Ketilsstöðum og varðaði beitarhagsmuni.

Nefndin áréttar að ekki sé hægt að taka tillit til beitarhagsmuna aðliggjandi jarða vegna skógræktar. Landeigandi Selárdals er í fullum rétti að nýta sitt land til skógræktar.

Samþykkt samhljóða.
5. 2105025 - Sóðaskapur og rusl í Hnúksnesi, Dalabyggð
Óskað er eftir aðgerðum vegna rusls í Hnúksnesi.
Umhverfisnefnd áréttar að þetta tiltekna erindi á að beinast til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og hefur sveitarfélagið beint því þangað.

Samþykkt samhljóða.
6. 2104022 - Fjárhagsáætlun 2022 og 2023-2025
Undirbúningur að vinnslu fjárhagsáætlunar.
Byggðarráð beinir því til nefnda sveitarfélagsins að ræða fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 á fundum sínum í maí og júní, sérstaklega þá þætti sem varða fjárfestingar/framkvæmdir.
Samþykkt samhljóða.

Lagt fram til kynningar. Rætt var um helstu verkefni á komandi misserum.
7. 2106007 - Iðjubraut - gatnagerð
Hafinn er undirbúningur fyrir gatnagerð Iðjubrautar sbr. deiliskipulagstillögu. Færa þarf núverandi söfnunarsvæði gróðurúrgangs og er gerð tillaga að nýjum stað ofan við gamla urðunastaðinn norðan þorpsins.
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að tillaga að nýrri staðsetningu söfnunarsvæðis fyrir gróðurúrgang í Búðardal verði samþykkt. Ný staðsetning verði grenndarkynnt fyrir eigendum aðliggjandi jarðar vegna nálægðar við landamörk.
8. 2105007 - Landgræðsluáætlun 2021-2031
Lagður fram tölvupóstur frá Landgræðslunni þar sem óskað er eftir umsögn um drög að Landgræðsluáætlun 2021-2031 og drög að umhverfismati áætlunarinnar.
Lagt fram til kynningar.
9. 2105008 - Drög að landsáætlun í skógrækt 2021-2031 og drög að umhverfismati áætlunarinnar
Óskað er eftir umsögnum um drög að landsáætlun í skógrækt 2021-2031 og um drög að umhverfismati áætlunarinnar.

Tilefni mótunar nýrrar stefnu, landsáætlunar í skógrækt, byggir á 4. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019. Þar segir: Ráðherra gefur út eigi sjaldnar en á fimm ára fresti landsáætlun í skógrækt til tíu ára í senn. Landsáætlunin skal kveða á um stefnu stjórnvalda þar sem fjallað er um stöðu og framtíð skóga í landinu, ásamt tölusettum markmiðum um árangur í skógrækt.

Lagt fram til kynningar.
10. 2002053 - Endurskoðun Aðalskipulags Dalabyggðar
Fyrir liggja frumdrög unnin af Verkís að heildarendurskoðun aðalskipulagsins í aðdraganda kynningu tillögunnar á vinnslustigi sem áætluð er í sumar.
Skipulagsfulltrúi lagði fram til kynningar frumdrög að heildarendurskoðun aðalskipulags Dalabyggðar. Nefndarmenn voru upplýstir um stöðu mála og að meðal næstu skrefa í ferlinu er kynning tillögunnar á vinnslustigi. Nefndarmenn ætla að fara ítarlega yfir frumdrögin og senda skipulagsráðgjöfum Verkís sem fyrst svör sín til yfirferðar.
Sigurður Sigurbjörnsson vék af fundi eftir dagskrárlið nr. 10.
11. 2003042 - Hróðnýjarstaðir - breyting á aðalskipulagi vegna vindorkuvers
Tekið er fyrir svarbréf, dags. 20. maí 2021, frá Skipulagsstofnun varðandi aðalskipulagsbreytingar í Dalabyggð í tengslum við vindorkuver á Hróðnýjarstöðum.

Dalabyggð sendi erindi um téðar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins til Skipulagsstofnunar til staðfestingar skv. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga þann 19. apríl 2021. Aðalskipulagsbreytingarnar voru samþykktar í sveitarstjórn Dalabyggðar 15. apríl 2021 ásamt svörum við athugasemdum sem bárust við auglýstar tillögur.

Í svarbréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að samhliða skipulagsferli þessara aðalskipulagsbreytinga vinna forsvarsaðilar áforma um vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða og Sólheima að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Stofnunin telur að þrátt fyrir að það sé mikilvægt að sveitarfélög marki sér stefnu í skipulagsmálum sem lögð sé til grundvallar ákvörðunum um einstök framkvæmdaáform, sbr. m.a umrædd vindorkuver í Dalabyggð, þá sé í þessu tilfelli mikilvægt að fyrir liggi þær upplýsingar sem fram munu koma í umhverfismati framkvæmdanna, áður en skipulagsforsendur framkvæmdanna eru endanlega ákveðnar með samþykkt og staðfestingu aðalskipulagsbreytinganna.

Skipulagsstofnun mælir með að Dalabyggð taki aðalskipulagsbreytingarnar til afgreiðslu að nýju þegar umhverfismati framkvæmdanna er lokið.

Skipulagsnefnd hefur móttekið svarbréf frá Skipulagsstofnun er varðar staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar vegna vindorkuvera í landi Hróðnýjarstaða og Sólheima. Skv. skipulagslögum ber sveitarstjórn ábyrgð á gerð eða breytingu aðalskipulags og sendir það Skipulagsstofnun til staðfestingar sbr. 2. mgr. 29. gr.

Nefndin áréttar að sveitarstjórn hefur samþykkt téðar aðalskipulagsbreytingar er varða breytingar á landbúnaðarlandi í iðnaðarsvæði og ítrekar fyrri beiðni um afgreiðslu.
12. 2003041 - Sólheimar - breyting á aðalskipulagi vegna vindorkuvers
Tekið er fyrir svarbréf, dags. 20. maí 2021, frá Skipulagsstofnun varðandi aðalskipulagsbreytingar í Dalabyggð í tengslum við vindorkuver í Sólheimum.

Dalabyggð sendi erindi um téðar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins til Skipulagsstofnunar til staðfestingar skv. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga þann 19. Apríl 2021.

Aðalskipulagsbreytingarnar voru samþykktar í sveitarstjórn Dalabyggðar 15. apríl 2021 ásamt svörum við athugasemdum sem bárust við auglýstar tillögur.

Í svarbréfi Skipulagsstofnunar kemur fram að samhliða skipulagsferli þessara aðalskipulagsbreytinga vinna forsvarsaðilar áforma um vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða og Sólheima að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna.

Stofnunin telur að þrátt fyrir að það sé mikilvægt að sveitarfélög marki sér stefnu í skipulagsmálum sem lögð sé til grundvallar ákvörðunum um einstök framkvæmdaáform, sbr. m.a umrædd vindorkuver í Dalabyggð, þá sé í þessu tilfelli mikilvægt að fyrir liggi þær upplýsingar sem fram munu koma í umhverfismati framkvæmdanna, áður en skipulagsforsendur framkvæmdanna eru endalega ákveðnar með samþykkt og staðfestingu aðalskipulagsbreytinganna.

Skipulagsstofnun mælir með að Dalabyggð taki aðalskipulagsbreytingarnar til afgreiðslu að nýju þegar umhverfismati framkvæmanna er lokið.

Skipulagsnefnd hefur móttekið svarbréf frá Skipulagsstofnun er varðar staðfestingu á breytingu á aðalskipulagi Dalabyggðar vegna vindorkuvera í landi Hróðnýjarstaða og Sólheima. Skv. skipulagslögum ber sveitarstjórn ábyrgð á gerð eða breytingu aðalskipulags og sendir það Skipulagsstofnun til staðfestingar sbr. 2. mgr. 29. gr.

Nefndin áréttar að sveitarstjórn hefur samþykkt téðar aðalskipulagsbreytingar er varða breytingar á landbúnaðarlandi í iðnaðarsvæði og ítrekar fyrri beiðni um afgreiðslu.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 16:30 

Til bakaPrenta